ÉG ER NÓG

Að eiga nóg af öllu þýðir hagsæld eða velmegun. Að búa yfir mikilli hagsæld.

Leik- og grunnskólaganga okkar er ein af mikilvægustu tímabilum ævi okkar. Á þessu tímabili er lagt mikið upp með að kenna okkur út á hvað ábyrgur og þroskaður einstaklingur þarf til að lifa í okkar samfélagi. Allir leiðbeinendur (kennarar, foreldrar, gangaverðir, þjálfarar, æskulýðsfulltrúar, stjórnmálamenn, fjölmiðlar, trúarbrögð o.fl.) leggja sig fram við að kenna okkur og móta eftir þeim samfélagslegum viðmiðum sem eru uppi hverju sinni. Leiðbeinendur eru jafn misjafnir og þeir eru margir og við sem einstaklingar reynum að meðtaka alla þá þekkingu og færni sem okkur er kennt og forgangsraða út frá okkar sýn á samfélaginu.

              Þrátt fyrir góðan ásetning hjá öllum þeim sem leiðbeindu mér í gegnum þennan tíma sem hafði svo mikið með að gera hvernig mér leið og hagaði mínu lífi, þá upplifði ég allt of oft að ég væri ekki nóg. Leiðbeinendur mínir gáfu mér þekkingu og leikni til að lífa í samfélagi þar sem að ákveðin viðmið eru til staðar og álitin vera samfélagslega rétt. En ég var sjaldan spurður um hvað mér þætti um þessi viðmið og einnig fékk ég sjaldan tækifæri til að gagnrýna þau eða taka þátt í að þróa og/eða samræma þau að minni sýn á samfélaginu. Leiðbeinendur mínir voru of uppteknir við að sýna mér hvað þeir höfðu mikla þekkingu og færni en þeir gleymdu að færa mér þá visku sem þarf til koma þeirri þekkingu og leikni í framkvæmd. Að geta upplifa sig við hverjar aðstæður sem koma upp að „ég sé NÓG“.

Það var alveg sama hvort ég var bestur í einhverju eða lakastur, viðmiðin voru alltaf þannig að mér fannst ég sjaldan nóg á mínum yngri árum. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en ég varð 38 ára gamall, þá losaði ég mig við kvaðir samfélagsins og hætti að láta aðstæður buga mig. Í dag vinn ég út frá því að „gera mitt besta“. Þannig er allt sem ég geri NÓG og hef ég loksins fundið innri frið og ró. Ég tek engu síður þátt í þeim viðmiðum sem samfélagið hefur sett okkur hverju sinni en ég læt það ekki stjórna mínu viðhorfi eða gildum. Ég finn enn fyrir þeirri tilfinningu að vera ekki nóg en ég er meðvitaður um að það er ekki út frá mínum viðmiðum, heldur samfélagsins. Daglega æfi ég mig í að láta ekki ytri aðstæður buga mig og láta viðmið samfélagsins ekki hafa áhrif á hvernig mér líður. Ég reyni alltaf að gera mitt besta og upplifi mig þannig að „ÉG ER NÓG“.

              Ég hef oft hugleitt  hvað sé drifkraftur samfélagsins. Það er margt sem drífur okkur áfram og gerir okkur kleift að ná þeim viðmiðum sem að samfélagið hefur sett okkur. Við erum nokkuð meðvituð um okkar eiginleika til að ná þessum viðmiðum. En við erum ekki eins meðvituð um þennan drifkraft eða ytri aðstæðum sem stjórna svo miklu í samfélaginu. Við teljum að við viljum það sem samfélagið segir að við eigum að vilja. Enda eru leiðbeinendur að kenna okkur að fylgja þeim viðmiðum sem þeim var kennt að fylgja. Það er mín reynsla að ef ég ætla að taka þátt í viðmiðum samfélagsins á þann hátt að ég þurfi að uppfylla þau, þá er ég sjaldan NÓG. Enda er drifkraftur samfélagsins byggður á hugtakinu „sá hæfasti lifir“.  Ef að þú ert ekki í þessum flokki, þá ert þú ekki nóg. Hvorki í augum samfélagsins né hjá sjálfum þér. Það er meira að segja þannig að ef að þú ert á meðal þeirra hæfustu, þá dugar það ekki. Kröfur samfélagsins eru oftast á þann veg að þú þarft að gera betur. Þetta blasir við okkur á öllum stigum samfélagsins. Ef þú nærð að fullnægja þessum viðmiðum, þá færð þú verðlaun fyrir það og hvatningarorðin hljóma á þá leið að þú munt gera enn betur. Ekki að þú sért nóg, heldur þarft þú að gera betur. Þetta er auðvita allt gert í góðum tilgangi og við sem leiðbeinendur erum ekki að hugsa þetta út frá illkvittni, þvert á móti erum við að „hvetja þig til dáða“. Því miður er það þannig að aðeins örfáir einstaklingar geta náð þessum viðmiðum sem að samfélagið er búið að ákveða að sé nóg. Sem leiðir til þess að mjög margir upplifa sig ekki nóg. Þau „hæfustu“ upplifa sig einnig ekki vera nóg. Þau verða alltaf að gera betur og þar af leiðandi njóta þau ekki augnabliksins sem fellst í þeirri fegurð og frið að vera NÓG.

Ég er sannfærður um að ef við leiðbeinendur nálgumst kennslu okkar á þeim forsendum að allir séu NÓG, þá erum við ekki eingöngu að láta þeim í té þekkingu og færni til að takast á við viðmið samfélagsins. Við erum einnig að gefa þeim þá visku sem þarf til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og vinna úr þeirri þekkingu og færni sem þau búa yfir hverju sinni. Við eigum að leggja meira upp úr því að allir geri sitt besta og þitt besta er breytilegt eftir aðstæðum og tíma. En þú ert alltaf NÓG.    

              Það hefur mikið breyst frá því að ég var á þessu æviskeiði lífs míns og margir leiðbeinendur eru farnir að huga meira að einstaklingnum en áður var og einnig er sjálft samfélagið búið að breyta viðmiðum sínum gagnvart þeirri þekkingu og leikni sem þú þarft að búa yfir. Góðir hlutir gerast hægt og ég finn fyrir meiri skilning gagnvart þessari nálgun en hugtakið „sá hæfasti lifir“ er enn helsti drifkraftur hjá samfélaginu. Börn í dag eru leidd áfram í þeirri harðri samkeppni sem fellst í því að vera hæfastur í einhverju og fá þau verðlaun sem því fylgir. Við erum fljót að hrósa og verðlauna þeim sem eru hæfust út frá þekkingu og leikni en hinir þurfa alltaf að horfa upp á þá sem skara fram úr samkvæmt viðmiðum samfélagsins og upplifa sig ekki nóg. En það er líka þannig með þá sem skara fram úr, þeim er ætlað að halda þessum viðmiðum á lofti og meira að segja að verða betri en þau eru. Þau eru heldur ekki nóg.

Ég hef hlotið ótal viðurkenningar og verðlaun í gegnum tíðina og er að sjálfsögðu stoltur af þeim og hefði ekki viljað missa af þeirri upplifun sem því fylgir. Ég hef mikið keppnisskap og þrífst vel í þessu umhverfi og þeim drifkraft sem keyrir samfélagið áfram. En þrátt fyrir það að ég hef náð góðum árangri út frá viðmiðum samfélagsins, þá var ég alltaf að leita af einhverju meira. Ég var ekki nóg.

              Við þráum öll að verða viðurkennd og að okkur sé gefin gaumur fyrir það sem við gerum og erum. En samfélagið er of upptekið af þeim viðmiðum sem það hefur sett okkur að það getur ekki leyft sér að hrósa þér eða verðlauna þig fyrir það sem þú ert. Það er alltaf það sem þú átt að verða eða hefur verið. Af hverju er svona erfitt fyrir okkur að vera staðsett þar sem við erum og vera sátt við það. Af hverju leyfum við samfélaginu að dæma okkur fyrir eitthvað sem við erum ekki. Af hverju eyðum við mest allri orku okkar í að viðhalda grímu sem að samfélagið getur sætt sig við í stað þess að vera það sem ég er. Sem er NÓG.

              Hvað er til ráðs, hvernig losum við okkur undan byrði samfélagsins og fellum niður grímuna. Hvernig getum við hjálpað okkar krökkum að upplifa sig NÓG og það á þessum mikilvægu uppvaxtar árum. Þar sem lagður er grunnur að þeim rótum sem tréð okkar vex út frá.

Það fyrsta sem við þurfum að viðurkenna er að samfélagið sem við lifum í sé ekki að virka sem skildi. Gildi skólana er ekki að skila sér til barnanna nema að litlu leiti. Enda eru það ekki gildin sem eru í raun ráðandi í skólakerfinu. Það sem stýrir skólakerfinu er í raun kappsemi sveitafélaga og þjóða að vera á réttum stað í súluritum þegar þau eru borin saman. Við erum upptekin af því að vera hæfust út frá þeim viðmiðum sem að samfélagið hefur sett okkur.

Í skólakerfinu erum við að mæla þekkingu og leikni sem er gott mál. En hvað með þá visku sem þarf til að beita þessari þekkingu og leikni í raunveruleikanum. Það gefst ekki tími í að bæta við visku inn í kennsluna og hvað þá að reyna að mæla hana. Tíminn er naumur og mikið kappsmál er að vera með rétta meðaleinkunn.

Þetta eru hugleiðingar mínar og ég á ekki von á að allir séu sammála þeim. Ég hef þörf fyrir að deila þessu sjónarhorni mínu sem ég hef öðlast í gegnum víðtæka reynslu í lífi mínu.

Kannski upplifa sig allir NÓG og ég var einungis seinn að átta mig á þeirri fegurð sem að lífið hefur upp á að bjóða. 

Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband