Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Byrjun á endurreisn Íslands - Ný viðhorf og ný gildi

Horfði á brot úr fréttum rétt í þessu og sá þar frétt þar sem að aðili úr öryrkjabandalaginu ef ég náði þessu rétt var að segja frá tillögu sem var borin fram um að taka ekki við fjárveitingu sem ætluð var þeim og ættu þeir fjármunir frekar að fara í að veita fólki húsaskjól og mat sem á þurfa að halda.

Þessi tillaga var felld en enga síður finnst mér þetta sýna þá breytingu sem hefur orðið í samfélaginu, hægt og rólega ná þessi nýju gildi og viðhorf í gegn og við sjáum villu vega okkar og mögulega fáum við að sjá nýtt samfélag innan 5-10 ára þar sem samkeppni, mismunun og grimmd víkur fyrir kærleika, samheldni og góðsemi.

Það má líka sjá í fréttunum ýmislegt sem að fólkið í landinu er farið að gera fyrir þá sem ganga í gegnum erfiðleika í samfélagi okkar, fólk er farið að baka, prjóna, safna fé o.m.fl. til hjápar þeim sem á því þurfa að halda í meiri mæli en áður. Kannski er þetta í sama mæli og áður en fjölmiðlar gera þessu meiri skil núna og því fáum við að heyra meira af því. En á hvorn veginn sem er, þá er þetta skref í rétta átt að mínu mati.

Um daginn kom skemmtileg frétt um einstæða móður í Sandgerði sem bakaði 180 bananabrauð fyrir fjölskylduhjálp og síðan er önnur skemmtileg frétt um Grindvíkinga sem eru að baka kærleikskleinur sem á að gefa Fjölskylduhjálp, þetta er það samfélag sem við eigum að stefna á, þar sem að við hjálpum þeim sem þurfa á því að halda og setjum forgangsröð okkar í rétt samhengi. Hér má sjá þessa frétt. http://vf.is/Mannlif/46233/default.aspx

Framundan eru jól og hvort sem þú ert trúaður eða ekki, þá getum við öll horft á þau sem tákn um kærleika og samheldni ef að við kjósum að gera svo, ég hvet alla sem geta hjálpað á einn eða annan hátt að gera slíkt og sýna kærleika í verki á þessum erfiðum tímum.

Kærleikur kostar ekkert.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Útrás kvenlægra gilda

Í dag fengu kvenlæg gildi að njóta sín og var gaman að sjá hvað margar konur tóku þátt í þessu mikilvæga verkefni sem er að gefa konum og gildum þeirra meiri gaum. Í dag erum við að fara að byggja upp nýtt Ísland og í mínum huga þurfa kvenlæg gildi að fá að njóta sín í þeirri uppbyggingu.

Samfélag okkar er byggt upp að mestu leiti á karllægum gildum og sagan hefur sýnt sig hvert það leiðir okkur. Allar okkar grunnstoðir eru einsleitar þegar horft er til þeirra gilda sem voru notaðar sem efniviður í þá uppbyggingu, kannski þurfti á því að halda þá eða einfaldlega voru þetta leifar af gömlum arfi sem er komin tími til að leiðrétta. Konur hafa barist í gegnum aldirnar eins og tíðarandinn hverju sinni hefur leyft þeim og náð miklum árangri en sá árangur ristir ekki nógu djúpt til að ýta af stað breytingum sem við þurfum á sem samfélag.

Hugtakið "þeir hæfustu lifa" á ekki lengur við og það gildi er oftar en ekki tengt við karllæg gildi og þá tippakeppni sem við þrífumst á í okkar daglega lífi. Þetta á auðvita ekki við alla karlmenn en ef að þú opinberar að þú sért í tengslum við kvenlæg gildi þín, þá passar þú ekki vel inn í þennan heim karlmanna þar sem stærð, styrkur og gredda er svo mikils metin. Ég vona að við sjáum okkur fært að gefa kvenlægum gildum gaum í komandi kosningum fyrir stjórnlagaþing og að loksins fáum við jafnvægi í mótun á einni af okkar mikilvægustu grunnstoðum. Við þurfum í dag að fá þau gildi sem geta sameinað og stýrt okkur í átt að samheldni, tillitsemi, heiðarleika og umfram allt kærleika. 

Hér má ekki misskiljast, karlmenn eru alveg færir um þetta en einhverja hluta vegna höfum við ekki sýnt það í verki og þar sem við berum ábyrgð á þeirri stefnu sem hefur verið tekin undanfarna áratugi a.m.k., þá finnst mér að við eigum að gefa konum og þeirra gildum þá eftirtekt sem þær/þau eiga skilið. 

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Hindranir

Hindranir, hvað er það, ef þú sérð þær ekki, þá eru þær ekki að trufla þig.
Þú gengur í gegnum þær eins og þær séu ekki til staðar.
Þannig á það að vera, ekki láta aðra segja þér hvað sé hægt og hvað ekki.
Trúðu á það sem þú sérð fyrir þér og láttu það verða að veruleika.
Ef það skaðar ekki aðra og ert gert með kærleika að leiðarljósi, þá láttu vaða.


Kosningar - 500 bjánar í boði

Ég kveikti á útvarpinu í morgun og það fyrsta sem ég heyrði var athugasemd fjölmiðlamanns um þá skoðun hans að hann vissi ekkert hvernig hann ætti að geta kosið á milli þessa 500 bjána sem eru að bjóða sig fram til stjórnlagaþings, hann þekkti þá ekkert og skildi ekkert í þessari vitleysu. Ég tek það fram, ég upplifði ekki að hann hafði þá skoðun að þeir sem hafa boðið sig fram væru bjánar, heldur fannst mér þetta vera meira svona hent fram í ljósi þeirra aðstæðna sem eru í gangi í okkar þjóðfélagi.

En hvað ætli margir séu á sama máli og þessi fjölmiðlamaður að þetta sé óþarfi og eyðsla á bæði tíma og peningum okkar. Allavega heyrist hátt innan úr herbúðum stjórnmálaflokkana og áróðurinn þaðan er allur á þá vegu að þetta sé ekki mikilvægt núna. Það er auðvita hægt að koma með góð rök fyrir því að það sé rétt en ég spyr á móti, ef ekki núna, hvenær þá.

Það eru allir að reyna að bjarga því sem bjarga verður í þessu frjálsu falli sem við virðumst vera í og þar hafa allir sínar skoðanir og telja sína leið vera betri og lítið virðist þokast áfram í einhverja sátt sem að þjóðin getur sætt sig við.
En það er vandarmál nútímans og það er gott að verið sé að vinna í því en það er annað vandarmál sem mér þykir stærra og það er sú staðreynd að eftir þessa krísu þarf að byggja upp okkar samfélag aftur og ef að það verður gert á sömu gildum og viðhorfi, þá erum við horfa upp á að eftir ca. 10-30 ár, þá erum við komin í sama pakkann.
Það gengur auðvita ekki, við verðum að horfa fram á við og skoða hvort ekki sé hægt að breyta okkar gildum og viðhorfum og búa til nýja framtíð með nýja áherslur sem horfa til þess að samfélagið heild sinni þrífist en ekki örfáir einstaklingar eða hópar sem hafa þau völd sem eru í boði í okkar þjóðfélagi í dag. Þessir einstaklingar þrífast m.a. í stjórnmálum, fyrirtækjum, sérhagsmunahópum og svo mætti lengi telja. En þessir aðilar virðast stýra öllu þegar kemur að ákvörðun sem varða alla þjóðina. Hér vantar að hleypa stærsta hagsmunahópnum að borðinu, það er að segja fólkið í landinu.

Ég hef aldrei lesið stjórnarskránna og ég geri ráð fyrir að meirihluti landsmanna hafi ekki gert það heldur, en það virðist vera þannig að þeir sem eru við völd geri það reglulega og vitni óspart í hana þegar það hentar þeirra sjónarhorni og er það gott en ef að stjórnarskráin er að leiða okkur á þá braut sem við erum komin núna, er þá ekki komin tími til að breyta henni og hafa þetta vinnuplagg valdamanna þjóðarinnar meira nær veruleika fólksins í landinu. Þá kannski minnkar bilið á milli þeirra sem búa í landinu og þeirra sem stjórna því. 

Ég trúi því að með  því að hleypa einhverjum af þessum 500 "bjánum" að stjórnarskrá okkar og lagfæra/endurnýja það sem þarf, þá gætu mögulega orðið til ný gildi og viðhorf í landinu sem mögulega leiða af sér nýjar lausnir og í framhaldi af því nýjar aðgerðir. Við þurfum ferska vinda og nýjan hugsunarhátt í grunnstoðir þjóðfélagsins og gott er að byrja á einni aðalgrunnstoð okkar sem er stjórnarskrá Íslands.

Ég vona að þeir sem verða kosnir til þess að vinna þessa vinnu horfi djúpt inní þjóðfélagið og horfi á það sem skiptir máli. Í mínum huga er það frelsi einstaklingsins til að lifa heilbrigðu lífi og til þess þarft þú að byrja á grunninum sem er að hafa fæði, klæði og hýsingu. Þegar allir í landinu eru komnir á það stig er næsta skref að viðhalda því, ef að það er til afgangur, þá getur frelsi einstaklingsins til að eigna sér meira fengið að njóta sín ef að vilji er fyrir því hjá þér.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni

 


Öskur veruleikans

Það er biturt en sætt að hlusta á umræðuna í dag sem litast af tilraunum núverandi leiðtogum okkar til að fá fólk ofan af því að heimta þær breytingar sem virðast vera í vændum. Það virðist vera búið að ná inn fyrir skelina hjá þeim og þau hafi áttað sig á því að þetta er ekki bara einhver vitleysa sem fólkið í landinu er að biðja um. Kannski veit fólkið eitthvað meira en þeim er ætlað að vita, kannski er kominn tími til að hlusta á þau en ekki tala niður til þeirra og segja þeim hvað sé þeim fyrir bestu. Já, ætli öskur veruleikans hafi ekki náð til þeirra, þau hafa áttað sig á þeim sannleika sem blasir við okkur öllum og kannski er tími til komin að gera eitthvað nýtt.

Ég er sannfærður um að þingmenn okkar telja sig vera að gera það rétta í stöðunni miðað við það sem þau hafa upplifað og lært í gegnum ævina en ég spyr sjálfan mig, hvaðan þessi lærdómur og upplifun kemur. Hverjir eru það sem kenndu þeim að taka sín fyrstu skref í þessum harða heimi sem pólitíkin er og hvar eru þessir aðilar núna. Það hefur oft verið sagt við mig "ungur nemur það sem gamall temur" og ég hef að sjálfsögðu notað þetta sjálfur án þess að skoða sérstalega hvað þetta gæti verið að vísa í. Ég hef alltaf talið að þetta væri jákvætt máltæki en er ekki svo viss lengur.

Hvað ef að mér er kennt að hugsa frekar um sjálfan mig en heildina, að einungis þeir hæfustu lifa af, ekki taka mark á öðrum hugmyndum ef að það kemur ekki frá þér eða þínum, fólkið í landinu getur ekki ákveðið þetta, hægri/vinstri er betra, það hafa allir jafna möguleika á að ná árangri, kapítalismi er frábær en sósíalismi ekki, sósíalismi er frábær en kapítalismi ekki, persónukjör virka ekki og svo mætti lengi telja.

Ég held að grunnur okkar í pólitík og á fleiri stöðum sé ekki lengur traustur og er byggður upp á gömlum gildum og viðhorfum sem við þurfum einfallega að lagfæra/endurnýja. Nú á til dæmis að hafa stjórnlagaþing þar sem að breytingar á stjórnarskrá eru í vændum, ég vona að þar fari inn fólk sem forgangsraðar okkur á undan flokknum.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig forgangsröðin okkar er í dag og hef spurt mig nokkrar spurningar ef val mitt væri takmarkað við eftirfarandi:
1. Hvort mundi ég gefa barninu mínu að borða eða senda það í íþróttir? 
2. Hvort mundi ég gefa barninu mínu að borða eða fara í ferðalag um Héðinsfjarðargöng?
3. Hvort mundi ég gefa barninu mínu að borða eða greiða listamanninum fyrir að mála fyrir mig málverk?
4. Hvort mundi ég gefa barninu mínu að borða eða hafa 63 barnapíur á launum?
5. Hvort mundi ég gefa barninu mínu að borða eða !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!?

Hver eru raunveruleg gildi okkar og viðhorf til gæða í lífinu. Af hverju snýst þetta um tippakeppni kjördæma, hver fær mest og hvaða verkefni á að setja í gang og á hvaða formerkjum. Ég skil ekki þessa hugsun og ég er viss um að meiri parturinn af fólkinu í landinu skilur þetta ekki heldur.

En framundan eru betri tímar, það er ég viss um, það mun taka tíma og mikla hreinsun hjá okkur sem einstaklingar og samhliða því sem samfélag en ég er sannfærður um að það mun takast.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni

 


Naktar hugleiðingar

Ekki hef ég alltaf skilið þörf þeirra sem vilja láta þennan vettvang vera vígvöll hugleiðinga og skoðana sinna. En þessi skoðun mín hefur breyst og ég sé betur þær ástæður sem liggja oft að baki þessum skrifum. Ekki er alltaf hægt að koma sínum skoðunum og hugleiðingum í gegnum mistur raunveruleikans þar sem hinir "útvöldu" keyra allt í kaf ef að það stenst ekki þeirra ritskoðun. En hér er hægt að losa um litróf okkar og skapa hugleiðingar sem fara út loftið og eru ekki byggðar á skoðun sem er oftar en ekki lituð af stýrðri samfélagslegri hegðun þeirra sem telja sig vera "útvaldir" til að ákveða hvernig gangverk lífsins á að vera.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband