Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Menntun er lausnin, allir í skóla !!!!

Af hverju er alltaf sagt að menntun sé lausnin og að fara í skóla leysi öll vandarmál í framtíðinni. Auðvita er menntun góð en þetta ofmetið sem einhver lausn fyrir alla.

Það eru ekki allir sem vilja ganga menntaveginn eða vita hvað þeir vilja gera þegar þeir eru 16-24 ára. Ég upplifi umræðuna á Íslandi þannig að ef þú gengur ekki menntaveginn, þá verður ekkert úr þér, þessi umræða þarf að fara á hærra plan.

Þessi menntadýrkun hefur skapað ákveðna stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Fjölmiðlar og þeirra viðmælendur tala oft niðrandi um svæði eða hópa sem eru með hátt hlutfall af ómenntuðum einstaklingum og vilja oft benda á það sem rót vandans og lausnin sé fólgin í því að skapa hátekju störf á svæðinu og/eða skapa farveg til að þessir ómenntuðu einstaklingar geti menntað sig til að leysa þau atvinnu- og/eða fjárhagsvandarmál sem þar eru.

Það þarf auðvita að vera fjölbreyttni í atvinnulífinu en það má ekki verða til þess að talað sé niður til þeirra sem eru "lægra" settir í menntunarstiganum. Menntun er góð ef að hún er sótt á réttum forsendum en við þurfum að fara að endurskoða hvernig við erum að framreiða þessa umræðu um þörf fyrir menntun í samfélaginu.

Í þjóðfélaginu okkar er gríðalega pressa á unga sem aldna í að mennta sig og við erum líka nokkuð gjörn á að stéttaskipta okkur eftir menntun og þetta blasir við okkur í launaumslaginu.

Það eru öll störf jafn mikilvæg og við þurfum að fara að meta þau þannig. Það gengur ekki að starfsfólk sem t.d. hefur unnið við sama starf í 10 ár fái 100.000 þús. kr. lægri laun vegna þess að hann/hún er án menntunnar.

Það geta auðvita ekki allir fengið það sama, sumir eru og verða alltaf með hærri laun en aðrir. Ég fagna því að sem flestir mennti sig en við þurfum að meta reynslu meira en við gerum í dag. 

Menntun er ekki betri en reynsla, menntun er tegund af reynslu sem þú getur alveg eins sótt á vinnumarkaðinum ef að þú hefur rétt tæki og tól við hendurnar. 

Menntun er góð en hún gerir okkur ekki að betri einstaklingum eða leysir öll vandarmál okkar. Við að sjálfsögðu verðum víðsýnni og þekking okkar eykst en þú þarft ekki að ganga menntaveginn til þess, það eru til fullt af öðrum leiðum til þess.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Millistéttin er að þurrkast út !!!

Þetta er nokkuð skrítin umræða og hefur svo margar hliðar á sér að það hálfa væri hellingur. Skoðum þetta aðeins.

Ef að við höfum millistétt, þá er eitthvað til sem heitir yfirstétt og þá lægristétt. Ef að millistéttin er að þurrkast út, þá held ég að við getum útilokað að millistéttin sé að færast yfir í yfirstéttina, því þá væri þetta ekki svona slæmt í huga okkar og viðbrögðin væru ekki svona hörð og mikil, þetta væri jú, skref upp á við í lífsgæða kapphlaupinu.
Þannig að niðurstaðan hlýtur að vera sú að millistéttin er að færast niður á við og þarf að flokka sig undir lægristétt og það er eitthvað sem ekki má gerast, því það er ekki fólki bjóðandi, lífsgæðin minnka og fjölskyldur hafa ekki efni á að lifa.

En þetta er nú samt eitthvað skrítið sjónarhorn sem hér er lagt fram, því að lægristéttin hefur alltaf verið til og það virðist vera að þegar ég er ekki staddur þar, þá sé í lagi að hún þrífist innan okkar samfélags, svo langt sem það snertir ekki mig, þá er í lagi að fjölskyldur og einstaklingar séu í lægristéttinni.

Það er líka kaldhæðnislegt hvernig við viljum flokka okkur eftir þessum stéttum og í þeiri umræðu sem skapast yfir kaffibolla vinnustaða, heimila, alþingis o.fl. þá virðist það vera leyfilegt að tala niður til þeirra sem fyrir neðan þig eru í þessari stéttarskiptingu og að þú sért betri eða meiri þjóðfélagsþegn og skilir meira til samfélagsins því ofar sem þú ert.
Ég veit að hérna eru margir ósammála mér og skil ég það vel, því meirihluti landsmanna vill ekki svona samfélag en því miður þegar kemur að hóphugsun, þá virkar samfélagið okkar of mikið í þessa átt. Þegar einhver reynir að benda á þetta, þá er yfirleitt bent á þá sem eru að misnota kerfið og oft er sagt að þau geta sjálfum sér um kennt að vera staddir á þeim stað sem þeir eru, það hafa jú, allir jafn mikla möguleika á að færa sig á milli stétta, er það ekki ?

Af hverju þarf að vera svona stéttarskipting í okkar þjóðfélagi, það er nóg til af öllu og handa öllum. Í samfélagi þar sem "sá hæfasti lifir" verður alltaf svona áberandi stéttarskipting og eina leiðin fyrir samfélag af þessu tagi að lifa er að hafa svokölluðu millistétt sem hvorki telur sig tilheyra lægristéttinni né yfirstéttinni. Millistéttin er svo upptekin að viðhalda þeirri stöðu að tilheyra ekki lægristéttinni og sækir fast í að nálgast yfirstéttina að hún hefur ekki tíma í neitt annað og verður meðvirk með yfirstéttinni í að viðhalda þeirri stöðu sem er ríkjandi í dag.
Ég væri ekki að setja út þetta samfélag ef að ég sæi að allt væri í góðu lagi og samkvæmt þeim gildum og viðhorfum sem við teljum okkur fylgja en á meðan það eru til fjölskyldur og einstaklingar sem ekki hafa fæði, klæði eða hýsingu yfir sig, þá tel ég að við þurfum að reyna að breyta því til batnaðar með öllum tiltækum ráðum.

Ég tel mig sjálfan tilheyra millistéttinni og sá ekki þetta óréttlæti fyrr en nýlega þegar ég hægði aðeins á sjálfum mér og skipti um gleraugu ef svo má að orði komast. Það tók tíma að venjast þeim en ég sá þá meðvirkni sem ég tók þátt í áður en ég endurnýjaði gleraugun mín.
Það var fullt af fólki í kringum mig sem var löngu búið að átta sig á þessu og aðlaga sig nýjum háttum í sínu eigin lífi og einnig er ég að upplifa það að mikið af fólki er að endurnýja gleraugu sín og ég er sannfærður um að á næstu 5-10 árum, þá eigum við eftir að sjá samfélag okkar rísa upp á nýjum grunnstoðum þar sem góðsemi og velvilji verða ofarlega í okkar gildum og viðhorfum.

Ég vona að millistéttin þurrkist út, ég reyndar vona að öll neikvæð stéttarskipting þurrkist út í nýja samfélagi okkar.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni 


Íslendingar = Góðsemi og velvilji

Undanfarin ár höfum við verið þekkt fyrir að vera undur fjármálaheimsins og að allt sem við snertum breyttist í gull og höfum við verið mjög upptekinn að vera best í heiminum með ýmsa hluti sem sérstaklega tengjast veraldlegum hlutum.
Ekki voru allir á sama máli og við með þetta fjármálabrask okkar og reyndu að benda okkur á villu vega okkar en við neituðum að hlusta, við vorum jú; "best í heimi."

Keppnisskap okkar er gríðalega mikið og á sér fáar hliðstæður í heiminum og þegar svona mikil orka kemur saman og sækir á eitthvað þá er nokkuð öruggt að eitthvað gerist, það getur verið gott en eins og undanfarnir mánuðir hafa sýnt, þá getur óhefluð kappsemi í veraldlega hluti leitt af sér óhugnalegan veruleika eins og við erum að upplifa í dag. Ef við ætlum að leysa þetta verkefni með því að horfa á hann með gleraugum efnishyggjunnar og þeirra dyggðar að vera best í heiminum, þá er okkur ekki viðbjargandi. 
Það er okkar ákvörðun hvernig við bregðumst við þessu. Ég hef alltaf sagt að það skiptir ekki máli hvort þú gerir "mistök" heldur hvernig þú bregst við þeim. Það gera allir mistök en við þurfum að draga lærdóm af þeim og finna okkar rétta farveg í lífinu.

Það er ekkert slæmt að hafa gott keppnisskap en þegar það er óheflað og ómarkvisst, þá er voðinn vís. Við verðum að búa til farveg fyrir þessa miklu orku sem við búum yfir og nýta hana til góðs. Í staðinn fyrir að sækjast eftir því að vera best í fjármálaheiminum, hlutabréfamarkaðinum, atvinnugeiranum o.fl. í þessum dúr, hvernig væri að sækjast eftir því að vera best í góðsemi og velvilja til náungans.
Þetta hljómar ekki vel í eyrum nútímans og þeirra sem stjórna brúðuleikhúsinu okkar, því að þá þarf að endurnýja/lagfæra allar brúðurnar í leikhúsinu.
Breytingar geta verið erfiðar, þær eru áreiti á raunveruleika okkar og tímafrekar. Í mínum huga er þetta ekki erfitt, þú einfaldlega leggur gömlu gleraugunum og setur upp ný gleraugu, það tekur tíma að venjast þeim en þegar aðlögunartíminn er liðinn, þá sérð þú miklu betur og fyrir vikið líður þér betur.

Framundan er dýr mánuður fyrir flesta, jólagjafir, skreytingar, jólahlaðborð o.m.fl. sem kostar mikinn pening. Hérna eru til margar leiðir til að sýna góðsemi og velvilja í verki, t.d. væri hægt að minnka hverja gjöf um 1000 kr. og leggja þann pening í gott málefni sem hjálpaði þeim sem hafa ekki fæði, klæði né hýsingu yfir höfði sér. Fyrirtæki gætu tekið upp á því að gefa 500 kr. afslátt af gjafavöru ef að kaupandinn leggur 500 kr. á móti og þessar 1000 kr. færu í að fæða, klæða og hýsa þá sem þurfa þess. Við gætum einnig sleppt að gefa gjafir til fullorðna og sett þann pening sem átti að fara í gjöfina til góðgerðamála.

Hvernig sem við ákveðum að sýna góðsemi og velvilja í verki, þá er það mikilvægur liður í að koma á breytingum í samfélagi okkar og þætti mér það hugljúft ef að þessar hugmyndir eða fleiri kæmu til framkvæmda og við sýndum okkur sjálfum hver forgangsröðunin er hjá okkur.

Eru það veraldlegir hlutir eða velvilji og góðsemi.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Óvissa

Óvissa er óþægilegt fyrirbæri, reiði, pirringur, öfund og hræðsla brýst fram með miklum krafti og ryður allri skynsemi í burtu, hefur áhrif á alla sem eru nálægt.

Í óvissu er æðruleysi „gulls ígldi,“ setja á sig kufl æðruleysis og ganga áfram. Ekki hika í ákvörðunartöku en framkvæma út frá velvilja, þá hverfur óvissan. Reiðin fjarar út, pirringurinn lægir, öfund lekur af manni og hræðslan breytist í áræðni og gangverk æðruleysis og velvilja gengur snuðrulaust fyrir sig.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband