Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Vanabindandi viðbrögð eru að drepa okkur

Hvað er það sem fær okkur til að viðurkenna, samþykkja og stundum upphefja samfélag okkar eins og það er í dag. Af hverju sjáum við ekki hvernig samfélag okkar er í raun og veru. Viðbrögð við áreiti á vana okkar er stundum of ótrúleg til að vera sönn. Við einhvern veginn náum að sannfæra okkur um að allt sé í lagi, þó að sannleikurinn öskri á okkur um að svo sé ekki. Hvað þarf til að við fáum hugrekki til að bregða út af vana og búa til nýtt og betra samfélag.

Viðbrögð okkar við áreiti á þann heim sem við þekkjum byggist á þeirri sýn sem við höfum á heiminum. Þessi sýn okkar tengist m.a. uppeldi okkar og því hreyfiafli sem sá okkur fyrir upplýsingum og fróðleik á hvernig samfélag okkar ætti að vera uppbyggt.
Það er sorglegt að samfélag okkar skuli ekki vera búið að brjótast undan oki veraldlegra gæða sem kristalast í þeirri næringu sem við sækjum í hjá m.a. pólitík, trúarbrögðum, fjölmiðlum, frægð og auðvaldinu.

Vanabindandi viðbrögð eru að drepa okkur og við tökum ekki einu sinni eftir því. 

Núna þegar raðir stækka og verða sýnilegri hjá hjálparsamtökum, þá virðist alltaf vaninn taka við sem hefur verið alinn upp í okkur gagnvart því að sjá ekki eymdina sem er í kringum okkur. Þar af leiðandi erum við ekki að vinna að endanlegri lausn á þessum vandarmálum sem eru og hafa alltaf verið til. Fjölmiðlar rembast við að finna þessa örfáu sem virðast vera að svindla á kerfinu frekar en að reyna að koma á framfæri þeirri brýnni þörf sem við stöndum frammi fyrir í samfélagi okkar. Pólitíkin og atvinnurekendur virðist vera uppteknir af því að benda á að það gangi ekki upp að atvinnuleysisbætur séu svona nálægt  lægstu launum og vilja lækka atvinnuleysisbætur. Frekar skrítin sýn en vaninn er ótrúlega sterkur og tekur alltaf yfir þegar ákvarðanir eru teknar á "reynslu" fyrri tíma og einnig þeirri sýn sem að leiðandi hreyfiafl samfélagsins reynir að halda uppi. Reyndar er orðið "reynir" ekki alveg rétt hjá mér, þetta hreyfiafl er ekki að reyna, það er að ná að sannfæra okkur að allt sé í góðu lagi. Það þarf bara að lækka bætur, halda launum niðri og viðhalda þessu "góða" samfélagi sem við höfum byggt upp á undanförnum öldum.

Hvernig væri að við tækjum ákvörðun út frá okkar eigin sannfæringu en ekki vanabindandi viðbrögðum sem tengjast því sem við lesum í fjölmiðlum, heyrum frá pólitíkusum, atvinnurekendum og öðrum sem tilheyra því hreyfiafli sem stýrir samfélagi okkar í dag. 

Næst þegar þú ert sammála eða ósammála einhverju út frá því sem þú ert vanur/vön að ákveða, prófaðu að henda öllu áreiti frá hreyfiaflinu og hlustaðu á sjálfan þig og athugaðu hvort þú sért enn á sama máli og þú varst áður.

Þú gætir einnig prófað að búa til þitt eigið hreyfiafl sem að gæti mögulega fætt af sér nýtt og betra samfélag. Hreyfiafl þarf ekki að vera stórt, það er nóg að þú ákveðir að verða hreyfiafl sem býr til betri samfélag, þá gefur þú öðrum í kringum þig leyfi til að gera slíkt hið sama. Það eina sem þarf er hugrekki til að hugsa, segja og framkvæma það sem þú trúir á og ef við styrkjum þetta hreyfiafl í okkur, þá verður innan skamms til nýtt samfélag sem er byggt á gildum og viðhorfum sem við getum verið stolt af að tilheyra.

Ég ætla að setja hérna inn texta sem ég hef geymt í langan tíma og finnst hann tilvalinn til að enda þessa hugleiðingu mína. Ég veit því miður ekki hver skrifaði hann og biðst ég velvirðingar á því að það fylgi ekki með.

"Vinnureglur útskýrðar

Byrjaðu með búr með fimm öpum. Í búrinu hangir banani í bandi og þar fyrir neðan seturðu stiga. Áður en langt um líður mun einn apinn fara að stiganum og reyna að klifra upp til að ná í bananann. Um leið og hann snertir stigann, þá sprautarðu alla apana með köldu vatni. Eftir smá stund reynir annar api við stigann, með sömu afleiðingum: Allir aparnir eru sprautaðir með köldu vatni. Fljótlega, þegar einhver api reynir að klifra stigann þá munu hinir aparnir koma í veg fyrir það.

Skrúfaðu nú fyrir kalda vatnið. Fjarlægðu einn apa úr búrinu og settu nýjan í staðinn. Nýi apinn sér bananann og reynir að klifra stigann. Þá ráðast hinir aparnir á hann og koma í veg fyrir að hann geti klifrað upp stigann. Eftir aðra tilraun veit apinn það að hann verður laminn ef hann reynir að klifra stigann.

Næst fjarlægirðu annan af upprunalegum fimm öpunum og setur nýjan í staðinn. Sá nýi reynir við stigann og það er ráðist á hann. Sá sem fyrr var settur inn nýr í hópinn tekur þátt í barsmíðunum af miklum áhuga.

Skiptu út þriðja af upprunalegu öpunum með nýjum apa. Sá nýi reynir við stigann og það er líka ráðist á hann. Tveir af þeim fjórum sem ráðast á hann hafa ekki hugmynd af hverju þeir máttu ekki klifra stigann, eða af hverju þeir eru að taka þátt í að berja nýliðann, en þeir gera það samt.

Skiptu út fjórða og fimmta apanum. Þá er búið að skipta út öllum öpunum sem voru sprautaðir með köldu vatni. Samt sem áður mun enginn api nálgast stigann aftur.  Af hverju? - Af því að svona hefur þetta alltaf verið hérna.

Og það er svoleiðis sem vinnureglur verða til."

Með vinsemd og virðingu
SólMáni

 


Hugleiðing

Ef hugsanir og hugmyndir eru settar í loftið, þá hægt og rólega verða þær að veruleika sem verða eðlilegar í umræðunni og hægt er að aftemja hjarðhegðun okkar sem við erum öll svo föst í.

Við þurfum bara að hafa hugrekki til að setja okkar hugmyndir og hugsanir í loftið og vitið til, ótrúlegir hlutir gerast. Þá áttum við okkur á því að það sem við hugsum, segjum og framkæmum skiptir raunverulega máli og í miklu stærra samhengi en við áttum okkur á.

 

Með vinsemd og virðingu

SólMáni


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband