Útrás kvenlægra gilda
25.10.2010 | 21:00
Í dag fengu kvenlæg gildi að njóta sín og var gaman að sjá hvað margar konur tóku þátt í þessu mikilvæga verkefni sem er að gefa konum og gildum þeirra meiri gaum. Í dag erum við að fara að byggja upp nýtt Ísland og í mínum huga þurfa kvenlæg gildi að fá að njóta sín í þeirri uppbyggingu.
Samfélag okkar er byggt upp að mestu leiti á karllægum gildum og sagan hefur sýnt sig hvert það leiðir okkur. Allar okkar grunnstoðir eru einsleitar þegar horft er til þeirra gilda sem voru notaðar sem efniviður í þá uppbyggingu, kannski þurfti á því að halda þá eða einfaldlega voru þetta leifar af gömlum arfi sem er komin tími til að leiðrétta. Konur hafa barist í gegnum aldirnar eins og tíðarandinn hverju sinni hefur leyft þeim og náð miklum árangri en sá árangur ristir ekki nógu djúpt til að ýta af stað breytingum sem við þurfum á sem samfélag.
Hugtakið "þeir hæfustu lifa" á ekki lengur við og það gildi er oftar en ekki tengt við karllæg gildi og þá tippakeppni sem við þrífumst á í okkar daglega lífi. Þetta á auðvita ekki við alla karlmenn en ef að þú opinberar að þú sért í tengslum við kvenlæg gildi þín, þá passar þú ekki vel inn í þennan heim karlmanna þar sem stærð, styrkur og gredda er svo mikils metin. Ég vona að við sjáum okkur fært að gefa kvenlægum gildum gaum í komandi kosningum fyrir stjórnlagaþing og að loksins fáum við jafnvægi í mótun á einni af okkar mikilvægustu grunnstoðum. Við þurfum í dag að fá þau gildi sem geta sameinað og stýrt okkur í átt að samheldni, tillitsemi, heiðarleika og umfram allt kærleika.
Hér má ekki misskiljast, karlmenn eru alveg færir um þetta en einhverja hluta vegna höfum við ekki sýnt það í verki og þar sem við berum ábyrgð á þeirri stefnu sem hefur verið tekin undanfarna áratugi a.m.k., þá finnst mér að við eigum að gefa konum og þeirra gildum þá eftirtekt sem þær/þau eiga skilið.
Með vinsemd og virðingu
SólMáni
Athugasemdir
Kvenlæg gildi? Jahérnhér...Ekki flýgur móðurmálið hátt þessi misserin. Það er ákveðin snilld að geta sett fram svona trénaða merkingarleysu.
Geturðu frætt okkur um hvaða "gildi" það eru sem Y litningar bera umfram okkur X-in? Þá á ég við gildi en ekki eiginleika, svo það sé á hreinu.
Fyrirgefðu hryssinginn en ég er kominn með upp í kok að lesa og heyra svona frasa frá fólki.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.10.2010 kl. 22:34
Ég fyrirgef þér alveg þennan hryssing eins og þú orðar það, hver og einn verður að vinna úr sínum raunveruleika og bregðast við því áreiti sem hann/hún verður fyrir. Ég er ekki að setja fram mínar hugleiðingar til að munnhöggvast um hvað sé rétt eða rangt í þeim, heldur að setja þær fram og ef að fólki líkar ekki við þær, þá er lítið sem ég get gert í því.
Við gætum ábyggilega átt góðar og gróskumiklar umræður um hvor gildin séu betri, hvort x-ið eða y-ið sé vænlegra til árangurs en það er ekki markmið mín með þessum skrifum, heldur að koma hugleiðingum mínum út i loftið. Ég veit að það eru ekki allir sammála mér eins og þú bendir svo sterklega á með athugasemd þinni enda held ég að þörf mín fyrir þessum skrifum væri ekki svona mikil ef að ég finndi ekki fyrir mótlæti gagnvart þessum hugleiðingum mínum.
Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik Guðmundsson, 25.10.2010 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.