Leiðsögn barna minna - vonandi leið sem virkar!
15.5.2015 | 23:06
Ég var að hugsa til barnanna minna og hvaða arfleið ég skil eftir handa þeim. Mig langar að vera fyrirmynd sem þau geta horft á og upplifað að það sem ég geri skiptir máli fyrir heiminn í kringum þau. Ég vil ekki stjórna hvað þau taka sér fyrir hendur þegar þau verða eldri og ég reyni að benda þeim á mörg sjónarhorn þegar þau spyrja mig spurninga. Það er erfitt að segja sína skoðun stundum án þess að traðka á skoðunum annara. Það er mjög gaman að eiga samtal við strákinn minn sem er að verða ellefu ára á þessu ári. Hann er forvitinn um svo margt sem ég átta mig stundum ekki á hvaðan sú forvitni kemur. Þetta eru málefni sem ég taldi hann ekki skipta máli, enda er hann enn svo ungur. Hann fær mig til að endurskoða mína afstöðu gagnvart ýmsum málefnum en kannski aðallega að vanda mig í hvernig ég matreiði mína skoðun til hans. Ég vil ekki að hann fylgi mínum skoðunum eingöngu að því að ég er faðir hans, ég vil að hann upplifi að skoðun mín sé mögulega leið sem virkar. Stundum þegar málefnið er eitthvað sem ég trúi mikið á, þá gleymi ég mér og tala af mikilli sannfæringu til að hann sé sammála mér en ég finn að þegar ég geri það, þá missir hann áhuga. Um leið og ég gef honum val um hvað hann vilji gera með þessar upplýsingar, þá leiðir samtalið okkur yfirleitt í skemmtilegar og fræðandi samræður. Jafnt fyrir mig sem hann.
Þetta gengur nokkuð vel hjá okkur að mér finnst og auðvita hef ég gert einhver mistök í þessari nálgun minni en ég er sáttur við að leiðbeina honum á þennan veg. En það sem ég er mest hræddur við er hvernig samfélagið hefur áhrif á skoðanir hans. Þar get ég lítið gert þegar ég er ekki nálægt. Við nálgumst lífið öll á sitt hvorn háttinn enda er lífsreynsla okkar allra jafn misjöfn og við erum mörg. Það er í raun engin leið rétt eða röng, það eru leiðir sem virka og leiðir sem virka ekki. Ég hef alltaf haft mjög miklar áhyggjur af samfélaginu sem við búum í, mér finnst oft forgangur okkar vera brenglaður. Þau skilaboð sem við sendum til krakkana er ekki í anda þess sem ég heyri nánast alla tala um þegar þau eru í návist fjölskyldunnar. Við erum of upptekin af því að eignast bílinn, húsið, maka og því sem að ýtt að okkur í gegnum veraldlega nálgun að við gleymum oft því sem skiptir mestu máli. Hve oft óskum við þess að lifa jafn áhyggjulausu lífi og börnin okkar. Að þurfa ekki að vera sífellt í þessu stressi og harki til að geta lifað lífinu eins og sú glansmynd sem að samfélagið hefur málað fyrir okkur.
Ég vona að þær leiðbeiningar sem börnin mín fá frá mér eða öðrum sem snerta líf þeirra sé á þann veg að þau geti sjálf tekið ákvörðun um hvað virkar og hvað virkar ekki En ekki út frá því sem er rétt eða rangt.
Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.