Færsluflokkur: Bloggar

Leiðsögn barna minna - vonandi leið sem virkar!

Ég var að hugsa til barnanna minna og hvaða arfleið ég skil eftir handa þeim. Mig langar að vera fyrirmynd sem þau geta horft á og upplifað að það sem ég geri skiptir máli fyrir heiminn í kringum þau. Ég vil ekki stjórna hvað þau taka sér fyrir hendur þegar þau verða eldri og ég reyni að benda þeim á mörg sjónarhorn þegar þau spyrja mig spurninga. Það er erfitt að segja sína skoðun stundum án þess að traðka á skoðunum annara. Það er mjög gaman að eiga samtal við strákinn minn sem er að verða ellefu ára á þessu ári. Hann er forvitinn um svo margt sem ég átta mig stundum ekki á hvaðan sú forvitni kemur. Þetta eru málefni sem ég taldi hann ekki skipta máli, enda er hann enn svo ungur. Hann fær mig til að endurskoða mína afstöðu gagnvart ýmsum málefnum en kannski aðallega að vanda mig í hvernig ég matreiði mína skoðun til hans. Ég vil ekki að hann fylgi mínum skoðunum eingöngu að því að ég er faðir hans, ég vil að hann upplifi að skoðun mín sé mögulega leið sem virkar. Stundum þegar málefnið er eitthvað sem ég trúi mikið á, þá gleymi ég mér og tala af mikilli sannfæringu til að hann sé sammála mér en ég finn að þegar ég geri það, þá missir hann áhuga. Um leið og ég gef honum val um hvað hann vilji gera með þessar upplýsingar, þá leiðir samtalið okkur yfirleitt í skemmtilegar og fræðandi samræður. Jafnt fyrir mig sem hann.

Þetta gengur nokkuð vel hjá okkur að mér finnst og auðvita hef ég gert einhver mistök í þessari nálgun minni en ég er sáttur við að leiðbeina honum á þennan veg. En það sem ég er mest hræddur við er hvernig samfélagið hefur áhrif á skoðanir hans. Þar get ég lítið gert þegar ég er ekki nálægt. Við nálgumst lífið öll á sitt hvorn háttinn enda er lífsreynsla okkar allra jafn misjöfn og við erum mörg. Það er í raun engin leið rétt eða röng, það eru leiðir sem virka og leiðir sem virka ekki. Ég hef alltaf haft mjög miklar áhyggjur af samfélaginu sem við búum í, mér finnst oft forgangur okkar vera brenglaður. Þau skilaboð sem við sendum til krakkana er ekki í anda þess sem ég heyri nánast alla tala um þegar þau eru í návist fjölskyldunnar. Við erum of upptekin af því að eignast bílinn, húsið, maka og því sem að ýtt að okkur í gegnum veraldlega nálgun að við gleymum oft því sem skiptir mestu máli. Hve oft óskum við þess að lifa jafn áhyggjulausu lífi og börnin okkar. Að þurfa ekki að vera sífellt í þessu stressi og harki til að geta lifað lífinu eins og sú glansmynd sem að samfélagið hefur málað fyrir okkur.

Ég vona að þær leiðbeiningar sem börnin mín fá frá mér eða öðrum sem snerta líf þeirra sé á þann veg að þau geti sjálf tekið ákvörðun um hvað virkar og hvað virkar ekki En ekki út frá því sem er rétt eða rangt.

Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik


ÉG ER NÓG

Að eiga nóg af öllu þýðir hagsæld eða velmegun. Að búa yfir mikilli hagsæld.

Leik- og grunnskólaganga okkar er ein af mikilvægustu tímabilum ævi okkar. Á þessu tímabili er lagt mikið upp með að kenna okkur út á hvað ábyrgur og þroskaður einstaklingur þarf til að lifa í okkar samfélagi. Allir leiðbeinendur (kennarar, foreldrar, gangaverðir, þjálfarar, æskulýðsfulltrúar, stjórnmálamenn, fjölmiðlar, trúarbrögð o.fl.) leggja sig fram við að kenna okkur og móta eftir þeim samfélagslegum viðmiðum sem eru uppi hverju sinni. Leiðbeinendur eru jafn misjafnir og þeir eru margir og við sem einstaklingar reynum að meðtaka alla þá þekkingu og færni sem okkur er kennt og forgangsraða út frá okkar sýn á samfélaginu.

              Þrátt fyrir góðan ásetning hjá öllum þeim sem leiðbeindu mér í gegnum þennan tíma sem hafði svo mikið með að gera hvernig mér leið og hagaði mínu lífi, þá upplifði ég allt of oft að ég væri ekki nóg. Leiðbeinendur mínir gáfu mér þekkingu og leikni til að lífa í samfélagi þar sem að ákveðin viðmið eru til staðar og álitin vera samfélagslega rétt. En ég var sjaldan spurður um hvað mér þætti um þessi viðmið og einnig fékk ég sjaldan tækifæri til að gagnrýna þau eða taka þátt í að þróa og/eða samræma þau að minni sýn á samfélaginu. Leiðbeinendur mínir voru of uppteknir við að sýna mér hvað þeir höfðu mikla þekkingu og færni en þeir gleymdu að færa mér þá visku sem þarf til koma þeirri þekkingu og leikni í framkvæmd. Að geta upplifa sig við hverjar aðstæður sem koma upp að „ég sé NÓG“.

Það var alveg sama hvort ég var bestur í einhverju eða lakastur, viðmiðin voru alltaf þannig að mér fannst ég sjaldan nóg á mínum yngri árum. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en ég varð 38 ára gamall, þá losaði ég mig við kvaðir samfélagsins og hætti að láta aðstæður buga mig. Í dag vinn ég út frá því að „gera mitt besta“. Þannig er allt sem ég geri NÓG og hef ég loksins fundið innri frið og ró. Ég tek engu síður þátt í þeim viðmiðum sem samfélagið hefur sett okkur hverju sinni en ég læt það ekki stjórna mínu viðhorfi eða gildum. Ég finn enn fyrir þeirri tilfinningu að vera ekki nóg en ég er meðvitaður um að það er ekki út frá mínum viðmiðum, heldur samfélagsins. Daglega æfi ég mig í að láta ekki ytri aðstæður buga mig og láta viðmið samfélagsins ekki hafa áhrif á hvernig mér líður. Ég reyni alltaf að gera mitt besta og upplifi mig þannig að „ÉG ER NÓG“.

              Ég hef oft hugleitt  hvað sé drifkraftur samfélagsins. Það er margt sem drífur okkur áfram og gerir okkur kleift að ná þeim viðmiðum sem að samfélagið hefur sett okkur. Við erum nokkuð meðvituð um okkar eiginleika til að ná þessum viðmiðum. En við erum ekki eins meðvituð um þennan drifkraft eða ytri aðstæðum sem stjórna svo miklu í samfélaginu. Við teljum að við viljum það sem samfélagið segir að við eigum að vilja. Enda eru leiðbeinendur að kenna okkur að fylgja þeim viðmiðum sem þeim var kennt að fylgja. Það er mín reynsla að ef ég ætla að taka þátt í viðmiðum samfélagsins á þann hátt að ég þurfi að uppfylla þau, þá er ég sjaldan NÓG. Enda er drifkraftur samfélagsins byggður á hugtakinu „sá hæfasti lifir“.  Ef að þú ert ekki í þessum flokki, þá ert þú ekki nóg. Hvorki í augum samfélagsins né hjá sjálfum þér. Það er meira að segja þannig að ef að þú ert á meðal þeirra hæfustu, þá dugar það ekki. Kröfur samfélagsins eru oftast á þann veg að þú þarft að gera betur. Þetta blasir við okkur á öllum stigum samfélagsins. Ef þú nærð að fullnægja þessum viðmiðum, þá færð þú verðlaun fyrir það og hvatningarorðin hljóma á þá leið að þú munt gera enn betur. Ekki að þú sért nóg, heldur þarft þú að gera betur. Þetta er auðvita allt gert í góðum tilgangi og við sem leiðbeinendur erum ekki að hugsa þetta út frá illkvittni, þvert á móti erum við að „hvetja þig til dáða“. Því miður er það þannig að aðeins örfáir einstaklingar geta náð þessum viðmiðum sem að samfélagið er búið að ákveða að sé nóg. Sem leiðir til þess að mjög margir upplifa sig ekki nóg. Þau „hæfustu“ upplifa sig einnig ekki vera nóg. Þau verða alltaf að gera betur og þar af leiðandi njóta þau ekki augnabliksins sem fellst í þeirri fegurð og frið að vera NÓG.

Ég er sannfærður um að ef við leiðbeinendur nálgumst kennslu okkar á þeim forsendum að allir séu NÓG, þá erum við ekki eingöngu að láta þeim í té þekkingu og færni til að takast á við viðmið samfélagsins. Við erum einnig að gefa þeim þá visku sem þarf til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og vinna úr þeirri þekkingu og færni sem þau búa yfir hverju sinni. Við eigum að leggja meira upp úr því að allir geri sitt besta og þitt besta er breytilegt eftir aðstæðum og tíma. En þú ert alltaf NÓG.    

              Það hefur mikið breyst frá því að ég var á þessu æviskeiði lífs míns og margir leiðbeinendur eru farnir að huga meira að einstaklingnum en áður var og einnig er sjálft samfélagið búið að breyta viðmiðum sínum gagnvart þeirri þekkingu og leikni sem þú þarft að búa yfir. Góðir hlutir gerast hægt og ég finn fyrir meiri skilning gagnvart þessari nálgun en hugtakið „sá hæfasti lifir“ er enn helsti drifkraftur hjá samfélaginu. Börn í dag eru leidd áfram í þeirri harðri samkeppni sem fellst í því að vera hæfastur í einhverju og fá þau verðlaun sem því fylgir. Við erum fljót að hrósa og verðlauna þeim sem eru hæfust út frá þekkingu og leikni en hinir þurfa alltaf að horfa upp á þá sem skara fram úr samkvæmt viðmiðum samfélagsins og upplifa sig ekki nóg. En það er líka þannig með þá sem skara fram úr, þeim er ætlað að halda þessum viðmiðum á lofti og meira að segja að verða betri en þau eru. Þau eru heldur ekki nóg.

Ég hef hlotið ótal viðurkenningar og verðlaun í gegnum tíðina og er að sjálfsögðu stoltur af þeim og hefði ekki viljað missa af þeirri upplifun sem því fylgir. Ég hef mikið keppnisskap og þrífst vel í þessu umhverfi og þeim drifkraft sem keyrir samfélagið áfram. En þrátt fyrir það að ég hef náð góðum árangri út frá viðmiðum samfélagsins, þá var ég alltaf að leita af einhverju meira. Ég var ekki nóg.

              Við þráum öll að verða viðurkennd og að okkur sé gefin gaumur fyrir það sem við gerum og erum. En samfélagið er of upptekið af þeim viðmiðum sem það hefur sett okkur að það getur ekki leyft sér að hrósa þér eða verðlauna þig fyrir það sem þú ert. Það er alltaf það sem þú átt að verða eða hefur verið. Af hverju er svona erfitt fyrir okkur að vera staðsett þar sem við erum og vera sátt við það. Af hverju leyfum við samfélaginu að dæma okkur fyrir eitthvað sem við erum ekki. Af hverju eyðum við mest allri orku okkar í að viðhalda grímu sem að samfélagið getur sætt sig við í stað þess að vera það sem ég er. Sem er NÓG.

              Hvað er til ráðs, hvernig losum við okkur undan byrði samfélagsins og fellum niður grímuna. Hvernig getum við hjálpað okkar krökkum að upplifa sig NÓG og það á þessum mikilvægu uppvaxtar árum. Þar sem lagður er grunnur að þeim rótum sem tréð okkar vex út frá.

Það fyrsta sem við þurfum að viðurkenna er að samfélagið sem við lifum í sé ekki að virka sem skildi. Gildi skólana er ekki að skila sér til barnanna nema að litlu leiti. Enda eru það ekki gildin sem eru í raun ráðandi í skólakerfinu. Það sem stýrir skólakerfinu er í raun kappsemi sveitafélaga og þjóða að vera á réttum stað í súluritum þegar þau eru borin saman. Við erum upptekin af því að vera hæfust út frá þeim viðmiðum sem að samfélagið hefur sett okkur.

Í skólakerfinu erum við að mæla þekkingu og leikni sem er gott mál. En hvað með þá visku sem þarf til að beita þessari þekkingu og leikni í raunveruleikanum. Það gefst ekki tími í að bæta við visku inn í kennsluna og hvað þá að reyna að mæla hana. Tíminn er naumur og mikið kappsmál er að vera með rétta meðaleinkunn.

Þetta eru hugleiðingar mínar og ég á ekki von á að allir séu sammála þeim. Ég hef þörf fyrir að deila þessu sjónarhorni mínu sem ég hef öðlast í gegnum víðtæka reynslu í lífi mínu.

Kannski upplifa sig allir NÓG og ég var einungis seinn að átta mig á þeirri fegurð sem að lífið hefur upp á að bjóða. 

Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik Guðmundsson


Bankaþankar - Nýtt hreyfiafl

Er þetta að virka

Í samfélagi okkar sem og svo margra er ákveðið hreyfiafl sem að allir vita af en við náum ekki að staðsetja nákvæmlega né að benda á það nema að benda á þætti eins og t.d. auðvaldið, pólitík, trúarbrögð, atvinnulífið og fjölmiðla. Þessir hópar hafa búið til hreyfiafl sem að knýr okkar heim áfram og sú grunnhugsun sem þar ræður ríkjum er að „sá hæfasti lifir“. Við uppeldi okkar og í öllum stöðum samfélagsins þá er alltaf sá sem er bestur, sterkastur, klárastur og flottastur sem „vinnur“. Þetta er ekkert sem við kippum okkur upp við enda er okkur tamt að hugsa, tala og framkvæma út frá þessari skilgreiningu á samfélagi. Það eru auðvita ekki allir að gera það en sem heild, þá er þetta það hreyfiafl sem hefur yfirhöndina. Í dag er þetta eðlilegur hlutur og það má ekki misskilja hér að þeir sem trúa á þessa leið séu eitthvað verri eða betri en aðrir en við hljótum að spyrja okkur í ljósi sögu okkar og þeirri stöðu sem að við sem samfélag erum að kljást við í dag. „ER ÞETTA AÐ VIRKA“. Við hljótum að sjá að svo er ekki, alveg sama hvoru megin þú ert við línuna að þetta er ekki að virka og hefur aldrei gert það nema fyrir örfáa aðila sem oftar en ekki eru partur af þessu hreyfiafli sem minnst er á hér fyrir ofan.

Hvað ef við gætum breytt þessu og fengið meiri samhljóm í samfélagið þar sem að allir fengju að njóta þess sem að okkar samfélag hefur upp á bjóða. Hvað ef að til væri önnur leið sem að hægt væri að fara og sú leið hefur ekki bara þann eiginleika að hljóma of fallega til að vera raunhæf. Heldur er hún framkvæmaleg og getur breytt samfélagi okkar í að virka í stað þess að virka ekki. Fyrst þegar við skoðum þessa nýju leið þá munum við byrja á að meta hana út frá þeim leiðum sem hafa ekki verið að virka hjá okkur, leiðir sem við höfum fylgt í gegnum áratugina ef ekki aldirnar. Með þeirri sýn, þá finnst okkur nýja leiðin illfæranleg ef ekki ómöguleg. En þar sem við erum flest sammála að þær leiðir sem við höfum verið að nota séu ekki að virka, hvernig væri þá að losa okkur við tak hreyfiaflsins og skoða þessa nýju leið með jákvæðu hugafari, gagnrýnni hugsun og sjá hvort þarna sé ekki eitthvað sem gæti virkað vel fyrir samfélagið.

Í öllum samfélögum er grunnþjónusta sem að annaðhvort ríki eða sveitafélag sinna eða þá atvinnulífið og þar á meðal er banki. Hér á eftir er hugmynd að stofnun banka sem að væri hugsaður út frá heildinni en ekki örfáum aðilum sem eru afsprengi þessa hreyfiafls sem er allsráðandi í samfélagi okkar í dag.

Gróf drög að nýjum banka:

- Stofnaður væri banki sem væri eign allra starfsmanna og viðskiptavina. (Það er nóg að fá vinnu eða vera í viðskiptum við bankann til að eignast í honum)
- Allir ættu einn hluta í honum og enginn gæti eingast meiri en einn hlut.
- Arðsemi mætti ekki vera meiri en fimm prósent.
- Arðsemin væri skipt í þrjá hluta:
          - 1/3 yrði skipt á milli alla hluthafa jafnt.     
          - 1/3 yrði sett í sjóð vegna uppbyggingu á málefnum tengt t.d. umhverfi og börnum.
          - 1/3 yrðu sett í góðgerðamál tengt samtökum sem eru að vinna í að
          fæða/klæða/hýsa einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á því að halda.
- Áhættusækni bankans væri í lágmarki. (Hann væri eingöngu hugsaður til að sinna grunnþörfum samfélagsins)
- Laun væru sýnileg og upp á yfirborðinu, ekkert falið enda ætti það að vera óþarfi.
- Ráðin væri bankastýra eða stjóri sem væri samfélagslega hugsandi.
- Bankinn væri ávalt með samfélagið að leiðarljósi og það væri búið þannig um hnútana að ekki væri hægt að búa til peningamaskínu fyrir elítuna til seinni tíma.

Grunnforsendan fyrir þessum rekstri er sú að allt fer tilbaka til samfélagsins á einn eða annan hátt en ekki til fárra útvalda einstaklinga sem því miður á hverjum 15-20 árum setja allt á annan endann eins og sagan hefur sýnt að gerist með núverandi hreyfiafli.

Nýtt hreyfiafl - byggja upp traust: 

Þegar rætt er um bankastarfssemi þá er mikil neikvæðni yfir þeirri umræðu og öllum þeim sem starfa á þeim vettvangi og því er mikilvægt að fá samfélagið til að treysta þessu nýja hreyfiafli sem getur orðið til ef að við kjósum að svo verði.

Að stofna nýjan banka tekur 2-5 ár og því er nógur tími til að sannfæra samfélagið um ágæti þessa banka. Til að byrja strax að móta þetta nýja hreyfiafl, þá er ætlunin að gefa samfélaginu kost á að taka þátt í verkefnum tengt samfélaginu. Það yrði stofnuð heimasíða þar sem að þeir sem vilja geta lagt inn 1000 kr. á mánuði sem að yrði sett mánaðarlega til góðgerðamála sem að hver og einn ákveður. Um hver mánaðarmót fara þeir sem eru að taka þátt í þessu og haka við þau góðgerðamál sem þeir vilja að peningarnir fara í og hægt og rólega mun þessi hópur stækka og láta gott af sér leiða og um leið að vinna sér traust samfélagsins. Síðan eftir 2-5 ár þegar bankinn verður stofnaður, þá er þegar orðið til hreyfiafl sem vinnur á öðrum gildum og viðhorfum en „Sá hæfasti lifir“ og samfélagið mun treysta þeim banka til að hugsa um samfélagið fyrst og fremst. Sem dæmi um styrk þessa hreyfiafls, þá yrði til 100 milljónir á mánuði ef að þetta nýja hreyfiafl samanstæði af 100.000 þús. manns sem leggðu inn 1000 kr. á mánuði. Þetta eitt gæti leyst mörg okkar samfélagslegu vandarmál til frambúðar.

Á meðan verið er að styrkja grunnstoðir þessa hreyfiafls fólksins, þá verður unnið hörðum höndum að því að koma bankanum af stað. Ætlunin er að allir sem eiga viðskipti og starfsmenn (hluthafar) bankans velji í lok árs, þau málefni sem þau vilja að bankinn styðji. Þannig að það er ekki gæluverkefni hjá einhverjum einum aðila innan bankans sem ákveður hvar sé best að setja þann afgang sem hlýst af þessu, heldur munu allir velja hvernig samfélagið nýtur góðs af afganginum.

Hugleiðingar – fullkominn heimur ? 

Hinn fullkomni heimur er kannski ekki til en við getum og eigum að leyfa okkur að reyna að búa hann til. Með því að heimfæra þetta eða svipað rekstrarform inn í samfélagið okkar, þá verður til ákveðin sjálfbærni í samfélaginu sem mun koma til með að nýtast okkur allstaðar í samfélaginu. Ef að t.d. almenn bankastarfssemi, tryggingafélög, stofnanir hjá ríki og sveitafélögum og ég tala nú ekki um ef að atvinnulífið færi að skoða þetta sem möguleika, þá munu fjármunir sem ríki og sveitafélög eru að leggja til þeirra málefna sem þessi rekstrarform fara að sinna minnka og það verður til grunnur að nýjum lausnum í innheimtu skatta og annarra gjalda sem er notað í grunnþjónustu okkar í dag.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni

Vanabindandi viðbrögð eru að drepa okkur

Hvað er það sem fær okkur til að viðurkenna, samþykkja og stundum upphefja samfélag okkar eins og það er í dag. Af hverju sjáum við ekki hvernig samfélag okkar er í raun og veru. Viðbrögð við áreiti á vana okkar er stundum of ótrúleg til að vera sönn. Við einhvern veginn náum að sannfæra okkur um að allt sé í lagi, þó að sannleikurinn öskri á okkur um að svo sé ekki. Hvað þarf til að við fáum hugrekki til að bregða út af vana og búa til nýtt og betra samfélag.

Viðbrögð okkar við áreiti á þann heim sem við þekkjum byggist á þeirri sýn sem við höfum á heiminum. Þessi sýn okkar tengist m.a. uppeldi okkar og því hreyfiafli sem sá okkur fyrir upplýsingum og fróðleik á hvernig samfélag okkar ætti að vera uppbyggt.
Það er sorglegt að samfélag okkar skuli ekki vera búið að brjótast undan oki veraldlegra gæða sem kristalast í þeirri næringu sem við sækjum í hjá m.a. pólitík, trúarbrögðum, fjölmiðlum, frægð og auðvaldinu.

Vanabindandi viðbrögð eru að drepa okkur og við tökum ekki einu sinni eftir því. 

Núna þegar raðir stækka og verða sýnilegri hjá hjálparsamtökum, þá virðist alltaf vaninn taka við sem hefur verið alinn upp í okkur gagnvart því að sjá ekki eymdina sem er í kringum okkur. Þar af leiðandi erum við ekki að vinna að endanlegri lausn á þessum vandarmálum sem eru og hafa alltaf verið til. Fjölmiðlar rembast við að finna þessa örfáu sem virðast vera að svindla á kerfinu frekar en að reyna að koma á framfæri þeirri brýnni þörf sem við stöndum frammi fyrir í samfélagi okkar. Pólitíkin og atvinnurekendur virðist vera uppteknir af því að benda á að það gangi ekki upp að atvinnuleysisbætur séu svona nálægt  lægstu launum og vilja lækka atvinnuleysisbætur. Frekar skrítin sýn en vaninn er ótrúlega sterkur og tekur alltaf yfir þegar ákvarðanir eru teknar á "reynslu" fyrri tíma og einnig þeirri sýn sem að leiðandi hreyfiafl samfélagsins reynir að halda uppi. Reyndar er orðið "reynir" ekki alveg rétt hjá mér, þetta hreyfiafl er ekki að reyna, það er að ná að sannfæra okkur að allt sé í góðu lagi. Það þarf bara að lækka bætur, halda launum niðri og viðhalda þessu "góða" samfélagi sem við höfum byggt upp á undanförnum öldum.

Hvernig væri að við tækjum ákvörðun út frá okkar eigin sannfæringu en ekki vanabindandi viðbrögðum sem tengjast því sem við lesum í fjölmiðlum, heyrum frá pólitíkusum, atvinnurekendum og öðrum sem tilheyra því hreyfiafli sem stýrir samfélagi okkar í dag. 

Næst þegar þú ert sammála eða ósammála einhverju út frá því sem þú ert vanur/vön að ákveða, prófaðu að henda öllu áreiti frá hreyfiaflinu og hlustaðu á sjálfan þig og athugaðu hvort þú sért enn á sama máli og þú varst áður.

Þú gætir einnig prófað að búa til þitt eigið hreyfiafl sem að gæti mögulega fætt af sér nýtt og betra samfélag. Hreyfiafl þarf ekki að vera stórt, það er nóg að þú ákveðir að verða hreyfiafl sem býr til betri samfélag, þá gefur þú öðrum í kringum þig leyfi til að gera slíkt hið sama. Það eina sem þarf er hugrekki til að hugsa, segja og framkvæma það sem þú trúir á og ef við styrkjum þetta hreyfiafl í okkur, þá verður innan skamms til nýtt samfélag sem er byggt á gildum og viðhorfum sem við getum verið stolt af að tilheyra.

Ég ætla að setja hérna inn texta sem ég hef geymt í langan tíma og finnst hann tilvalinn til að enda þessa hugleiðingu mína. Ég veit því miður ekki hver skrifaði hann og biðst ég velvirðingar á því að það fylgi ekki með.

"Vinnureglur útskýrðar

Byrjaðu með búr með fimm öpum. Í búrinu hangir banani í bandi og þar fyrir neðan seturðu stiga. Áður en langt um líður mun einn apinn fara að stiganum og reyna að klifra upp til að ná í bananann. Um leið og hann snertir stigann, þá sprautarðu alla apana með köldu vatni. Eftir smá stund reynir annar api við stigann, með sömu afleiðingum: Allir aparnir eru sprautaðir með köldu vatni. Fljótlega, þegar einhver api reynir að klifra stigann þá munu hinir aparnir koma í veg fyrir það.

Skrúfaðu nú fyrir kalda vatnið. Fjarlægðu einn apa úr búrinu og settu nýjan í staðinn. Nýi apinn sér bananann og reynir að klifra stigann. Þá ráðast hinir aparnir á hann og koma í veg fyrir að hann geti klifrað upp stigann. Eftir aðra tilraun veit apinn það að hann verður laminn ef hann reynir að klifra stigann.

Næst fjarlægirðu annan af upprunalegum fimm öpunum og setur nýjan í staðinn. Sá nýi reynir við stigann og það er ráðist á hann. Sá sem fyrr var settur inn nýr í hópinn tekur þátt í barsmíðunum af miklum áhuga.

Skiptu út þriðja af upprunalegu öpunum með nýjum apa. Sá nýi reynir við stigann og það er líka ráðist á hann. Tveir af þeim fjórum sem ráðast á hann hafa ekki hugmynd af hverju þeir máttu ekki klifra stigann, eða af hverju þeir eru að taka þátt í að berja nýliðann, en þeir gera það samt.

Skiptu út fjórða og fimmta apanum. Þá er búið að skipta út öllum öpunum sem voru sprautaðir með köldu vatni. Samt sem áður mun enginn api nálgast stigann aftur.  Af hverju? - Af því að svona hefur þetta alltaf verið hérna.

Og það er svoleiðis sem vinnureglur verða til."

Með vinsemd og virðingu
SólMáni

 


Hugleiðing

Ef hugsanir og hugmyndir eru settar í loftið, þá hægt og rólega verða þær að veruleika sem verða eðlilegar í umræðunni og hægt er að aftemja hjarðhegðun okkar sem við erum öll svo föst í.

Við þurfum bara að hafa hugrekki til að setja okkar hugmyndir og hugsanir í loftið og vitið til, ótrúlegir hlutir gerast. Þá áttum við okkur á því að það sem við hugsum, segjum og framkæmum skiptir raunverulega máli og í miklu stærra samhengi en við áttum okkur á.

 

Með vinsemd og virðingu

SólMáni


Menntun er lausnin, allir í skóla !!!!

Af hverju er alltaf sagt að menntun sé lausnin og að fara í skóla leysi öll vandarmál í framtíðinni. Auðvita er menntun góð en þetta ofmetið sem einhver lausn fyrir alla.

Það eru ekki allir sem vilja ganga menntaveginn eða vita hvað þeir vilja gera þegar þeir eru 16-24 ára. Ég upplifi umræðuna á Íslandi þannig að ef þú gengur ekki menntaveginn, þá verður ekkert úr þér, þessi umræða þarf að fara á hærra plan.

Þessi menntadýrkun hefur skapað ákveðna stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Fjölmiðlar og þeirra viðmælendur tala oft niðrandi um svæði eða hópa sem eru með hátt hlutfall af ómenntuðum einstaklingum og vilja oft benda á það sem rót vandans og lausnin sé fólgin í því að skapa hátekju störf á svæðinu og/eða skapa farveg til að þessir ómenntuðu einstaklingar geti menntað sig til að leysa þau atvinnu- og/eða fjárhagsvandarmál sem þar eru.

Það þarf auðvita að vera fjölbreyttni í atvinnulífinu en það má ekki verða til þess að talað sé niður til þeirra sem eru "lægra" settir í menntunarstiganum. Menntun er góð ef að hún er sótt á réttum forsendum en við þurfum að fara að endurskoða hvernig við erum að framreiða þessa umræðu um þörf fyrir menntun í samfélaginu.

Í þjóðfélaginu okkar er gríðalega pressa á unga sem aldna í að mennta sig og við erum líka nokkuð gjörn á að stéttaskipta okkur eftir menntun og þetta blasir við okkur í launaumslaginu.

Það eru öll störf jafn mikilvæg og við þurfum að fara að meta þau þannig. Það gengur ekki að starfsfólk sem t.d. hefur unnið við sama starf í 10 ár fái 100.000 þús. kr. lægri laun vegna þess að hann/hún er án menntunnar.

Það geta auðvita ekki allir fengið það sama, sumir eru og verða alltaf með hærri laun en aðrir. Ég fagna því að sem flestir mennti sig en við þurfum að meta reynslu meira en við gerum í dag. 

Menntun er ekki betri en reynsla, menntun er tegund af reynslu sem þú getur alveg eins sótt á vinnumarkaðinum ef að þú hefur rétt tæki og tól við hendurnar. 

Menntun er góð en hún gerir okkur ekki að betri einstaklingum eða leysir öll vandarmál okkar. Við að sjálfsögðu verðum víðsýnni og þekking okkar eykst en þú þarft ekki að ganga menntaveginn til þess, það eru til fullt af öðrum leiðum til þess.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Millistéttin er að þurrkast út !!!

Þetta er nokkuð skrítin umræða og hefur svo margar hliðar á sér að það hálfa væri hellingur. Skoðum þetta aðeins.

Ef að við höfum millistétt, þá er eitthvað til sem heitir yfirstétt og þá lægristétt. Ef að millistéttin er að þurrkast út, þá held ég að við getum útilokað að millistéttin sé að færast yfir í yfirstéttina, því þá væri þetta ekki svona slæmt í huga okkar og viðbrögðin væru ekki svona hörð og mikil, þetta væri jú, skref upp á við í lífsgæða kapphlaupinu.
Þannig að niðurstaðan hlýtur að vera sú að millistéttin er að færast niður á við og þarf að flokka sig undir lægristétt og það er eitthvað sem ekki má gerast, því það er ekki fólki bjóðandi, lífsgæðin minnka og fjölskyldur hafa ekki efni á að lifa.

En þetta er nú samt eitthvað skrítið sjónarhorn sem hér er lagt fram, því að lægristéttin hefur alltaf verið til og það virðist vera að þegar ég er ekki staddur þar, þá sé í lagi að hún þrífist innan okkar samfélags, svo langt sem það snertir ekki mig, þá er í lagi að fjölskyldur og einstaklingar séu í lægristéttinni.

Það er líka kaldhæðnislegt hvernig við viljum flokka okkur eftir þessum stéttum og í þeiri umræðu sem skapast yfir kaffibolla vinnustaða, heimila, alþingis o.fl. þá virðist það vera leyfilegt að tala niður til þeirra sem fyrir neðan þig eru í þessari stéttarskiptingu og að þú sért betri eða meiri þjóðfélagsþegn og skilir meira til samfélagsins því ofar sem þú ert.
Ég veit að hérna eru margir ósammála mér og skil ég það vel, því meirihluti landsmanna vill ekki svona samfélag en því miður þegar kemur að hóphugsun, þá virkar samfélagið okkar of mikið í þessa átt. Þegar einhver reynir að benda á þetta, þá er yfirleitt bent á þá sem eru að misnota kerfið og oft er sagt að þau geta sjálfum sér um kennt að vera staddir á þeim stað sem þeir eru, það hafa jú, allir jafn mikla möguleika á að færa sig á milli stétta, er það ekki ?

Af hverju þarf að vera svona stéttarskipting í okkar þjóðfélagi, það er nóg til af öllu og handa öllum. Í samfélagi þar sem "sá hæfasti lifir" verður alltaf svona áberandi stéttarskipting og eina leiðin fyrir samfélag af þessu tagi að lifa er að hafa svokölluðu millistétt sem hvorki telur sig tilheyra lægristéttinni né yfirstéttinni. Millistéttin er svo upptekin að viðhalda þeirri stöðu að tilheyra ekki lægristéttinni og sækir fast í að nálgast yfirstéttina að hún hefur ekki tíma í neitt annað og verður meðvirk með yfirstéttinni í að viðhalda þeirri stöðu sem er ríkjandi í dag.
Ég væri ekki að setja út þetta samfélag ef að ég sæi að allt væri í góðu lagi og samkvæmt þeim gildum og viðhorfum sem við teljum okkur fylgja en á meðan það eru til fjölskyldur og einstaklingar sem ekki hafa fæði, klæði eða hýsingu yfir sig, þá tel ég að við þurfum að reyna að breyta því til batnaðar með öllum tiltækum ráðum.

Ég tel mig sjálfan tilheyra millistéttinni og sá ekki þetta óréttlæti fyrr en nýlega þegar ég hægði aðeins á sjálfum mér og skipti um gleraugu ef svo má að orði komast. Það tók tíma að venjast þeim en ég sá þá meðvirkni sem ég tók þátt í áður en ég endurnýjaði gleraugun mín.
Það var fullt af fólki í kringum mig sem var löngu búið að átta sig á þessu og aðlaga sig nýjum háttum í sínu eigin lífi og einnig er ég að upplifa það að mikið af fólki er að endurnýja gleraugu sín og ég er sannfærður um að á næstu 5-10 árum, þá eigum við eftir að sjá samfélag okkar rísa upp á nýjum grunnstoðum þar sem góðsemi og velvilji verða ofarlega í okkar gildum og viðhorfum.

Ég vona að millistéttin þurrkist út, ég reyndar vona að öll neikvæð stéttarskipting þurrkist út í nýja samfélagi okkar.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni 


Íslendingar = Góðsemi og velvilji

Undanfarin ár höfum við verið þekkt fyrir að vera undur fjármálaheimsins og að allt sem við snertum breyttist í gull og höfum við verið mjög upptekinn að vera best í heiminum með ýmsa hluti sem sérstaklega tengjast veraldlegum hlutum.
Ekki voru allir á sama máli og við með þetta fjármálabrask okkar og reyndu að benda okkur á villu vega okkar en við neituðum að hlusta, við vorum jú; "best í heimi."

Keppnisskap okkar er gríðalega mikið og á sér fáar hliðstæður í heiminum og þegar svona mikil orka kemur saman og sækir á eitthvað þá er nokkuð öruggt að eitthvað gerist, það getur verið gott en eins og undanfarnir mánuðir hafa sýnt, þá getur óhefluð kappsemi í veraldlega hluti leitt af sér óhugnalegan veruleika eins og við erum að upplifa í dag. Ef við ætlum að leysa þetta verkefni með því að horfa á hann með gleraugum efnishyggjunnar og þeirra dyggðar að vera best í heiminum, þá er okkur ekki viðbjargandi. 
Það er okkar ákvörðun hvernig við bregðumst við þessu. Ég hef alltaf sagt að það skiptir ekki máli hvort þú gerir "mistök" heldur hvernig þú bregst við þeim. Það gera allir mistök en við þurfum að draga lærdóm af þeim og finna okkar rétta farveg í lífinu.

Það er ekkert slæmt að hafa gott keppnisskap en þegar það er óheflað og ómarkvisst, þá er voðinn vís. Við verðum að búa til farveg fyrir þessa miklu orku sem við búum yfir og nýta hana til góðs. Í staðinn fyrir að sækjast eftir því að vera best í fjármálaheiminum, hlutabréfamarkaðinum, atvinnugeiranum o.fl. í þessum dúr, hvernig væri að sækjast eftir því að vera best í góðsemi og velvilja til náungans.
Þetta hljómar ekki vel í eyrum nútímans og þeirra sem stjórna brúðuleikhúsinu okkar, því að þá þarf að endurnýja/lagfæra allar brúðurnar í leikhúsinu.
Breytingar geta verið erfiðar, þær eru áreiti á raunveruleika okkar og tímafrekar. Í mínum huga er þetta ekki erfitt, þú einfaldlega leggur gömlu gleraugunum og setur upp ný gleraugu, það tekur tíma að venjast þeim en þegar aðlögunartíminn er liðinn, þá sérð þú miklu betur og fyrir vikið líður þér betur.

Framundan er dýr mánuður fyrir flesta, jólagjafir, skreytingar, jólahlaðborð o.m.fl. sem kostar mikinn pening. Hérna eru til margar leiðir til að sýna góðsemi og velvilja í verki, t.d. væri hægt að minnka hverja gjöf um 1000 kr. og leggja þann pening í gott málefni sem hjálpaði þeim sem hafa ekki fæði, klæði né hýsingu yfir höfði sér. Fyrirtæki gætu tekið upp á því að gefa 500 kr. afslátt af gjafavöru ef að kaupandinn leggur 500 kr. á móti og þessar 1000 kr. færu í að fæða, klæða og hýsa þá sem þurfa þess. Við gætum einnig sleppt að gefa gjafir til fullorðna og sett þann pening sem átti að fara í gjöfina til góðgerðamála.

Hvernig sem við ákveðum að sýna góðsemi og velvilja í verki, þá er það mikilvægur liður í að koma á breytingum í samfélagi okkar og þætti mér það hugljúft ef að þessar hugmyndir eða fleiri kæmu til framkvæmda og við sýndum okkur sjálfum hver forgangsröðunin er hjá okkur.

Eru það veraldlegir hlutir eða velvilji og góðsemi.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Óvissa

Óvissa er óþægilegt fyrirbæri, reiði, pirringur, öfund og hræðsla brýst fram með miklum krafti og ryður allri skynsemi í burtu, hefur áhrif á alla sem eru nálægt.

Í óvissu er æðruleysi „gulls ígldi,“ setja á sig kufl æðruleysis og ganga áfram. Ekki hika í ákvörðunartöku en framkvæma út frá velvilja, þá hverfur óvissan. Reiðin fjarar út, pirringurinn lægir, öfund lekur af manni og hræðslan breytist í áræðni og gangverk æðruleysis og velvilja gengur snuðrulaust fyrir sig.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Byrjun á endurreisn Íslands - Ný viðhorf og ný gildi

Horfði á brot úr fréttum rétt í þessu og sá þar frétt þar sem að aðili úr öryrkjabandalaginu ef ég náði þessu rétt var að segja frá tillögu sem var borin fram um að taka ekki við fjárveitingu sem ætluð var þeim og ættu þeir fjármunir frekar að fara í að veita fólki húsaskjól og mat sem á þurfa að halda.

Þessi tillaga var felld en enga síður finnst mér þetta sýna þá breytingu sem hefur orðið í samfélaginu, hægt og rólega ná þessi nýju gildi og viðhorf í gegn og við sjáum villu vega okkar og mögulega fáum við að sjá nýtt samfélag innan 5-10 ára þar sem samkeppni, mismunun og grimmd víkur fyrir kærleika, samheldni og góðsemi.

Það má líka sjá í fréttunum ýmislegt sem að fólkið í landinu er farið að gera fyrir þá sem ganga í gegnum erfiðleika í samfélagi okkar, fólk er farið að baka, prjóna, safna fé o.m.fl. til hjápar þeim sem á því þurfa að halda í meiri mæli en áður. Kannski er þetta í sama mæli og áður en fjölmiðlar gera þessu meiri skil núna og því fáum við að heyra meira af því. En á hvorn veginn sem er, þá er þetta skref í rétta átt að mínu mati.

Um daginn kom skemmtileg frétt um einstæða móður í Sandgerði sem bakaði 180 bananabrauð fyrir fjölskylduhjálp og síðan er önnur skemmtileg frétt um Grindvíkinga sem eru að baka kærleikskleinur sem á að gefa Fjölskylduhjálp, þetta er það samfélag sem við eigum að stefna á, þar sem að við hjálpum þeim sem þurfa á því að halda og setjum forgangsröð okkar í rétt samhengi. Hér má sjá þessa frétt. http://vf.is/Mannlif/46233/default.aspx

Framundan eru jól og hvort sem þú ert trúaður eða ekki, þá getum við öll horft á þau sem tákn um kærleika og samheldni ef að við kjósum að gera svo, ég hvet alla sem geta hjálpað á einn eða annan hátt að gera slíkt og sýna kærleika í verki á þessum erfiðum tímum.

Kærleikur kostar ekkert.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband