Millistéttin er að þurrkast út !!!

Þetta er nokkuð skrítin umræða og hefur svo margar hliðar á sér að það hálfa væri hellingur. Skoðum þetta aðeins.

Ef að við höfum millistétt, þá er eitthvað til sem heitir yfirstétt og þá lægristétt. Ef að millistéttin er að þurrkast út, þá held ég að við getum útilokað að millistéttin sé að færast yfir í yfirstéttina, því þá væri þetta ekki svona slæmt í huga okkar og viðbrögðin væru ekki svona hörð og mikil, þetta væri jú, skref upp á við í lífsgæða kapphlaupinu.
Þannig að niðurstaðan hlýtur að vera sú að millistéttin er að færast niður á við og þarf að flokka sig undir lægristétt og það er eitthvað sem ekki má gerast, því það er ekki fólki bjóðandi, lífsgæðin minnka og fjölskyldur hafa ekki efni á að lifa.

En þetta er nú samt eitthvað skrítið sjónarhorn sem hér er lagt fram, því að lægristéttin hefur alltaf verið til og það virðist vera að þegar ég er ekki staddur þar, þá sé í lagi að hún þrífist innan okkar samfélags, svo langt sem það snertir ekki mig, þá er í lagi að fjölskyldur og einstaklingar séu í lægristéttinni.

Það er líka kaldhæðnislegt hvernig við viljum flokka okkur eftir þessum stéttum og í þeiri umræðu sem skapast yfir kaffibolla vinnustaða, heimila, alþingis o.fl. þá virðist það vera leyfilegt að tala niður til þeirra sem fyrir neðan þig eru í þessari stéttarskiptingu og að þú sért betri eða meiri þjóðfélagsþegn og skilir meira til samfélagsins því ofar sem þú ert.
Ég veit að hérna eru margir ósammála mér og skil ég það vel, því meirihluti landsmanna vill ekki svona samfélag en því miður þegar kemur að hóphugsun, þá virkar samfélagið okkar of mikið í þessa átt. Þegar einhver reynir að benda á þetta, þá er yfirleitt bent á þá sem eru að misnota kerfið og oft er sagt að þau geta sjálfum sér um kennt að vera staddir á þeim stað sem þeir eru, það hafa jú, allir jafn mikla möguleika á að færa sig á milli stétta, er það ekki ?

Af hverju þarf að vera svona stéttarskipting í okkar þjóðfélagi, það er nóg til af öllu og handa öllum. Í samfélagi þar sem "sá hæfasti lifir" verður alltaf svona áberandi stéttarskipting og eina leiðin fyrir samfélag af þessu tagi að lifa er að hafa svokölluðu millistétt sem hvorki telur sig tilheyra lægristéttinni né yfirstéttinni. Millistéttin er svo upptekin að viðhalda þeirri stöðu að tilheyra ekki lægristéttinni og sækir fast í að nálgast yfirstéttina að hún hefur ekki tíma í neitt annað og verður meðvirk með yfirstéttinni í að viðhalda þeirri stöðu sem er ríkjandi í dag.
Ég væri ekki að setja út þetta samfélag ef að ég sæi að allt væri í góðu lagi og samkvæmt þeim gildum og viðhorfum sem við teljum okkur fylgja en á meðan það eru til fjölskyldur og einstaklingar sem ekki hafa fæði, klæði eða hýsingu yfir sig, þá tel ég að við þurfum að reyna að breyta því til batnaðar með öllum tiltækum ráðum.

Ég tel mig sjálfan tilheyra millistéttinni og sá ekki þetta óréttlæti fyrr en nýlega þegar ég hægði aðeins á sjálfum mér og skipti um gleraugu ef svo má að orði komast. Það tók tíma að venjast þeim en ég sá þá meðvirkni sem ég tók þátt í áður en ég endurnýjaði gleraugun mín.
Það var fullt af fólki í kringum mig sem var löngu búið að átta sig á þessu og aðlaga sig nýjum háttum í sínu eigin lífi og einnig er ég að upplifa það að mikið af fólki er að endurnýja gleraugu sín og ég er sannfærður um að á næstu 5-10 árum, þá eigum við eftir að sjá samfélag okkar rísa upp á nýjum grunnstoðum þar sem góðsemi og velvilji verða ofarlega í okkar gildum og viðhorfum.

Ég vona að millistéttin þurrkist út, ég reyndar vona að öll neikvæð stéttarskipting þurrkist út í nýja samfélagi okkar.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband