Íslendingar = Góðsemi og velvilji

Undanfarin ár höfum við verið þekkt fyrir að vera undur fjármálaheimsins og að allt sem við snertum breyttist í gull og höfum við verið mjög upptekinn að vera best í heiminum með ýmsa hluti sem sérstaklega tengjast veraldlegum hlutum.
Ekki voru allir á sama máli og við með þetta fjármálabrask okkar og reyndu að benda okkur á villu vega okkar en við neituðum að hlusta, við vorum jú; "best í heimi."

Keppnisskap okkar er gríðalega mikið og á sér fáar hliðstæður í heiminum og þegar svona mikil orka kemur saman og sækir á eitthvað þá er nokkuð öruggt að eitthvað gerist, það getur verið gott en eins og undanfarnir mánuðir hafa sýnt, þá getur óhefluð kappsemi í veraldlega hluti leitt af sér óhugnalegan veruleika eins og við erum að upplifa í dag. Ef við ætlum að leysa þetta verkefni með því að horfa á hann með gleraugum efnishyggjunnar og þeirra dyggðar að vera best í heiminum, þá er okkur ekki viðbjargandi. 
Það er okkar ákvörðun hvernig við bregðumst við þessu. Ég hef alltaf sagt að það skiptir ekki máli hvort þú gerir "mistök" heldur hvernig þú bregst við þeim. Það gera allir mistök en við þurfum að draga lærdóm af þeim og finna okkar rétta farveg í lífinu.

Það er ekkert slæmt að hafa gott keppnisskap en þegar það er óheflað og ómarkvisst, þá er voðinn vís. Við verðum að búa til farveg fyrir þessa miklu orku sem við búum yfir og nýta hana til góðs. Í staðinn fyrir að sækjast eftir því að vera best í fjármálaheiminum, hlutabréfamarkaðinum, atvinnugeiranum o.fl. í þessum dúr, hvernig væri að sækjast eftir því að vera best í góðsemi og velvilja til náungans.
Þetta hljómar ekki vel í eyrum nútímans og þeirra sem stjórna brúðuleikhúsinu okkar, því að þá þarf að endurnýja/lagfæra allar brúðurnar í leikhúsinu.
Breytingar geta verið erfiðar, þær eru áreiti á raunveruleika okkar og tímafrekar. Í mínum huga er þetta ekki erfitt, þú einfaldlega leggur gömlu gleraugunum og setur upp ný gleraugu, það tekur tíma að venjast þeim en þegar aðlögunartíminn er liðinn, þá sérð þú miklu betur og fyrir vikið líður þér betur.

Framundan er dýr mánuður fyrir flesta, jólagjafir, skreytingar, jólahlaðborð o.m.fl. sem kostar mikinn pening. Hérna eru til margar leiðir til að sýna góðsemi og velvilja í verki, t.d. væri hægt að minnka hverja gjöf um 1000 kr. og leggja þann pening í gott málefni sem hjálpaði þeim sem hafa ekki fæði, klæði né hýsingu yfir höfði sér. Fyrirtæki gætu tekið upp á því að gefa 500 kr. afslátt af gjafavöru ef að kaupandinn leggur 500 kr. á móti og þessar 1000 kr. færu í að fæða, klæða og hýsa þá sem þurfa þess. Við gætum einnig sleppt að gefa gjafir til fullorðna og sett þann pening sem átti að fara í gjöfina til góðgerðamála.

Hvernig sem við ákveðum að sýna góðsemi og velvilja í verki, þá er það mikilvægur liður í að koma á breytingum í samfélagi okkar og þætti mér það hugljúft ef að þessar hugmyndir eða fleiri kæmu til framkvæmda og við sýndum okkur sjálfum hver forgangsröðunin er hjá okkur.

Eru það veraldlegir hlutir eða velvilji og góðsemi.

Með vinsemd og virðingu
SólMáni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband